Galdrahornið

GOTT FYRIR ALLA: Sjálfstraustsæfingar geta haft mjög mikil og jákvæð áhrif til góðs.

 

Með því að nota ímyndunaraflið getur þú eflt sjálfstraust þitt til muna:

Sjálfstraustsæfingar geta haft mjög mikil og jákvæð áhrif til góðs. Eina sem þú þarft að gera er að sjá fyrir þér hlutina og þá fer eitthvað gott af stað. Hugurinn ber þig nefnilega ekki hálfa leið, heldur alla leið.

Verndarskjöldur

Ímyndaðu þér að þú sért með stórt sjal eða slá sem þú vefur um þig. Þegar þú ert með flíkina utan um þig skaltu sjá fyrir þér að þú sért full/ur af styrk og njótir mikillar verndar. Engin neikvæðni og engin leiðindi komast í gegnum hana. Hún er eins og skjöldur umhverfis þig og þér líður jafnvel eins og þú sért ósýnileg/ur þótt fólk sé í kringum þig. Þetta fyllir þig sjálfstrausti og öryggi.
Þú getur líka notað alvöruflík í þessum tilgangi. Ef þér líður illa getur þú vafið henni utan um þig og það eitt eflir hugrekki þitt og lætur þér líða betur.

Hugmyndaflæði

Þegar þú ert algjörlega hugmyndasnauð/ur og þarft sárlega á innblæstri að halda geturðu séð fyrir þér að þú sért með fjólubláa eða hvíta húfu á höfðinu. Þú getur meira að segja sett á þig alvöruhúfu eða -hatt ef þú átt sem er í öðrum hvorum þessara lita. Sjáðu svo fyrir þér gylltan ljóshnött sem kemur svífandi niður og fer inn í höfuðið á þér. Finndu hlýjuna sem hann veitir frá hvirfli til ilja og á meðan hann fer í gegnum allan líkama þinn ertu tengd/ur alheiminum. Nú ættu að flæða til þín hugmyndir.

Réttu orðin

Túrkís er litur tjáningar og ef þú þarft á réttu orðunum að halda, til dæmis á fundi, viðtali eða á stefnumóti, er snjallt að ímynda sér að þú vefjir slíkum klúti utan um hálsinn á þér áður en þú leggur af stað. Þú getur að sjálfsögðu verið með slíkan klút utan um hálsinn í rauninni, það er sannarlega ekki verra.

Skínandi fatnaður

Allt of mörgum finnst þeir ekki almennilega fínir í neinni flík og þar af leiðandi ekki öruggir með sig. Taktu þá flík; jakka, kjól, buxur eða hvað sem þú lítur á sem uppáhaldsflík, og klæðir þig einna best og handleiktu hana. Sjáðu fyrir þér að hún sé umvafin bleiku ljósi. Klæddu þig í hana og segðu við sjálfa/n þig: „Ég skín og blómstra í þessum jakka/kjól í hvert sinn sem ég klæðist honum.“ Þetta mun auka sjálfstraust þitt og þér líður enn betur í flíkinni.

Litaval

Litir eru sagðir mikilvægir þegar kemur að orku. Ef þú vilt fyllast eldmóði er sá appelsínuguli góður. Græni liturinn tengist fjármálum og samskiptum, sá blái stendur fyrir innblástur og svo framvegis. En ef þér líður t.d. vel í svörtu skaltu ekki hlusta á þá sem segja það þyngslalegan lit. Svartur er líklega algengasti liturinn sem landsmenn velja á spariföt sín og stendur fyrir styrk, vald og vernd.
Hér er listi yfir liti og þá orku sem hver og einn býr yfir.
Gulur: Orka, hvatning, örvun
Rauður: Ástríða, öryggi
Grænn: Peningar, samskipti
Blár: Heilun, innblástur
Appelsínugulur: Hamingja, eldmóður
Brúnn: Þróttur, ásetningur
Fjólublár: Dulrænir hæfileikar
Bleikur: Rómantík, ást
Hvítur: Andlegheit, friður
Svartur: Styrkur, vald, vernd

Silfurbeltið

Sjálfsöruggasta fólk er ekki það sem hefur „fullkomið“ útlit. Hugurinn er það sem fær sjálfsörugga fólkið til að líða vel. Prófaðu eftirfarandi sjálfstraustsráð:
Ímyndaðu þér að þú setjir silfurbelti utan um þig. Hertu beltið þangað til þér finnst líkami þinn hafa þá lögun sem þú ert ánægð/ur með og segðu: „Eins og ég sé það, verður það.“ Þetta hefur þau áhrif að þér mun líða betur í eigin skinni.

Sjálfstraustsskór

Skórnir sem við klæðumst geta haft áhrif á hversu sterk og örugg okkur finnst við vera. Þegar þú ert búin/n að klæða þig á morgnana sjáðu þá fyrir þér að skórnir sem þú ferð í séu t.d. sterkir hermannaklossar með stáltá eða jafnvel upphá mótorhjólastígvél. Ímyndaðu þér að þú klæðir þig í skóna, smellir, reimar, bindur, festir og allt það, og að þeir nái hátt upp fótinn. Finndu stuðninginn sem þeir veita þér. Andaðu djúpt og vertu fullviss um að í sjálfstraustsskónum þínum getir þú tekist á við allt sem dagurinn færir þér.

Meira aðdráttarafl

Þegar konur varalita sig er gott að sjá fyrir sér skínandi orkuleiftur sem þær setja á varirnar um leið og varalitinn. Þú getur sent öðrum orku með því að sjá fyrir þér að þú kyssir viðkomandi á kinnina. Ef þú ert hrifin af manneskjunni smellir þú að sjálfsögðu hugarkossi á munninn … Þetta eykur aðdráttarafl þitt.
Þótt þú varalitir þig aldrei geturðu samt séð fyrir þér að þú smellir kossi á fólk.

Related Posts