3239

SKEMMTILEGT: Stefnumótamenning Íslendinga hefur ekki verið upp á marga fiska en með tilkomu Tinder-appsins er aðeins að glæðast í þeim efnum.

Yfirborðskennt en skemmtilegt:

 
Tinder kom fyrst á markað árið 2012 en náði ekki vinsældum hér á landi fyrr en á þessu ári. Það er tengt Facebook-reikningi notenda sem minnkar líkurnar á fölsuðum prófílum sem hafa stundum verið til vandræða á öðrum stefnumótasíðum. Tinder gengur út á að segja nei eða já við myndum af öðrum notendum, með því að fletta til vinstri eða hægri – allt í þeirri von um að fá já sem svar. Það er nefnilega ekki fyrr en báðir aðilar segja já að hægt er að hefja spjall sín á milli. Það hefur fengið töluverða gagnrýni, sérstaklega fyrir að ýta undir yfirborðskennd og hégóma því það byggist jú nær eingöngu á útlitinu. Það hefur þó ekki orðið til að minnka vinsældir þess og fólk sem myndi ekki nota almennar stefnumótasíður notar samt Tinder. Þetta er líka ágætis leið til að kynnast fólki sem þú hefðir kannski ekki haft tækifæri til annars. Hér eru nokkur góð ráð til að auka líkurnar á að aðrir notendur fletti til hægri og segi já við þínum prófíl.

 

1. Notaðu skýrar og góðar myndir í prófílnum þínum

Á tímum snjallsíma og stafrænna myndavéla er engin afsökun til að nota óskýrar myndir, þú einfaldlega hlýtur að eiga betri mynd af þér. Tinder snýst um fyrstu hughrif og fyrsta myndin verður að að vera góð. Óskýr mynd gefur til ýmist kynna að þú sért óörugg/ur og viljir síður sína þig í réttu ljósi eða að þú sért einfaldlega ekki að leggja þig nóg fram.

2. Vertu með fleiri en eina mynd

Tinder er mjög sjónrænt ferli og myndirnar á prófílnum þínum eru þar til að gefa innsýn í persónu þína. Þeir sem eru bara með eina eða tvær myndir, sem eru jafnvel dökkar eða óskýrar, eru ekki að gefa mikið af sér og virðast bara vera á Tinder til að skoða.

3. #SELFIE

Sjálfsmyndir, eða „selfies“, eru allar svo keimlíkar að það er leiðinlegt að fletta í gegnum langa röð þeirra. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa öðruvísi myndir á prófílnum þínum til að brjóta þær upp. Settu til dæmis inn mynd þar sem þú ert að gera eitthvað skemmtilegt eða stunda áhugamál, hvort sem það er að ganga á fjall eða í sumarfríi erlendis.

4. Segðu aðeins frá þér

Ef aðdáanda lýst vel á fyrstu myndina þína þá eru allar líkur á því að hann opni prófílinn þinn. Nýttu þér því „bio“-dálkinn til að gefa aðeins til kynna hvernig týpa þú ert því það auðveldar aðdáendum að brydda upp á samræðum við þig. Þú þarft alls ekki að segja ævisögu þína en skrifaðu örfáar línur um þig eða það sem þú hefur áhuga á. Ef þú ert fyndin/n vertu fyndin/n en ef þú ert það ekki – ekki reyna það.

5. Slepptu Aristóteles og Dantes

Það er erfitt að vera heimspekilegur eða djúpur á Tinder og því er betra að sleppa tilvitnunum í skáld og heimspekinga. Ef þú vilt endilega vera með einhvers konar tilvitnun kemur oft betur út að vitna í skemmtilega sjónvarpsþætti, eins og Arrested Development eða Friends, eða jafnvel lagatexta. Það segir einfaldlega mun meira um þig sem persónu.

6. Notaðu appið reglulega

Á prófílnum þínum sést hvenær þú varst síðast virk/ur og mögulegir aðdáendur þínir eru síður líklegir til að segja já ef þú hefur ekki notað appið í margar vikur. Enginn vill taka þá áhættu að senda einhverjum skilaboð og viðkomandi sér þau ekki fyrr en viku síðar.

 

Texti: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts