Falleg förðun á gamlárskvöld:

VSNYE-Thumbnail-1440x800

GÓÐUR UNDIRBÚNINGUR: Góður undirbúningur og réttar vörur eru lykillinn að langlífri förðun

Gamlárskvöld er í margra augum stærsta partí ársins. Þess vegna er um að gera að sleppa fram af sér beislinu og hámarka glamúrinn; bæði í klæðaburði og förðun. Það gildir bara ein regla; að vera sem mest áberandi, því maður er jú að keppa við flugeldana. Það getur þó reynst hægara sagt en gert að fá farðann til að endast frá kvöldmatartíma til morguns daginn eftir. Góður undirbúningur og réttar vörur eru lykillinn að langlífri förðun svo hér eru nokkur góð ráð.

 

1. Húðin er oft þurr eftir frost vetrarins því er mikilvægt að djúphreinsa hana reglulega til að fjarlægja dauðar húðfrumur og koma í veg fyrir að hún flagni. Þó að best sé að nota kornakrem eða húðbursta reglulega er betra að nota eitthvað mildara fyrir sérstakt tilefni eins og gamlárskvöld. Tilvalið er að nota ensímhreinsi, eins og til dæmis Silk Peeling Powder frá Sensai sem er lýst sem kornakremi án korna. Ensímhreinsar leysa upp dauðar húðfrumur og gefa henni ferkst yfirbragð án þess þó að erta húðina.

 

2. Ekki er gott að nota of þykkt eða feitt rakakrem rétt áður en maður byrjar að farða sig því það getur valdið því að farðinn renni til. Farði verður heldur ekki fallegur á þurri húð og því verður að tryggja að húðin fái nógan raka. Best er að byrja á því að nota rakagefandi serum, þau eru yfirleitt léttari en jafnframt virkari en venjuleg rakakrem, eins og Dior Hydra Life Serum Sorbet, og svo má setja létt rakakrem ofan á ef með þarf.

 

3. Til þess að tryggja að farðinn haldist ferskur lengur er gott að nota primer. Primer virkar eins og grunnur sem leiðréttir misfellur, sléttir húðina og minnkar auk þess ásýnd húðholna og litabletta. Hann heldur húðinni nærðri en kemur einnig í veg fyrir að olíur hennar blandist við farðann. Smashbox framleiðir nokkrar gerðir af primerum sem henta fyrir mismunandi húðgerðir og eru hver öðrum betri.

 

4. Þegar kemur að vali á snyrtivörum er gott að styðjast við þumalputtaregluna að vörur með kremáferð endast yfirleitt skemur en þær með púðuráferð. Besta trixið er samt að nota hvorutveggja saman, það er að nota fyrst kremkennda vöru og svo púðurkennda ofan á, því púðrið festir kremið. Þannig má byggja upp þunn lög sem eykur endingartíma farðans.

 

5. Til að hámarka endinguna er einnig gott að nota þartilgerð sprey sem festa farðann en þau virka í raun eins og hársprey fyrir andlitið. Gott dæmi um slíkt þarfaþing er MAC Fix+.

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts