Hlæðu meira – og hafðu minni áhyggjur:

Með aldrinum gerist það óneitanlega að lífið verður alvarlegra. Það fylgir því meiri ábyrgð og fleiri áhyggjur. Í hraða nútímans er auðvelt að týnast í þessu. Það gæti verið góð hugmynd að taka meðvitaða ákvörðun um að staldra við og hlæja meira. Jafnvel leggja sig fram við að skapa sér aðstæður þar sem hlátur er óhjákvæmilegur. Þú gætir byrjað að hlusta á gott uppistand á YouTube, t.d. Jimmy Carr, Eddie Izzard, Dave Chappelle eða Söruh Millican, og svo bara prófað þig áfram.

Kynntu þér uppistand
Sem betur fer höfum við ekki öll sama húmorinn. Það er til fjöldinn allur af grínistum sem taka á mismunandi málefnum á sprenghlægilegan hátt. Á YouTube er aragrúi frábærra uppistandara, allt frá klassíkerum, eins og Eddie Murphy, til nýstirna á borð við Michael Che. Vonandi er þar einhver sem getur fengið þig til að veltast um af hlátri.

Syngdu í bílnum
Furðulegt? Alls ekki! Edda Björgvinsdóttir sagði frá þessu stórgóða ráði í viðtali einhvern tímann. Hún hefur tónlist í bílnum sem fyllir hana gleði og syngur hástöfum með. Við erum mikil bílaþjóð og því koma stundir þar sem flestir eru einir í bílnum. Nýttu tímann, jafnvel í og úr vinnu, til að syngja og hlæja dálítið að þér í leiðinni. Passaðu bara að syngja nógu hátt. Þá kemur gleðin ósjálfrátt.

Umkringdu þig fólki sem fær þig til að hlæja
Dagarnir geta farið misvel í alla. Á þungum dögum er afskaplega gott og hollt að sækja í það fólk sem fær þig til að hlæja. Hittu vini þína, fjölskyldu eða vinnufélaga sem framkalla hlátur hjá þér. Njóttu þín og hugaðu að því hvað það er sem fær þetta fólk til að vera fyndið. Tileinkaðu þér það síðan.

Brostu með augunum
Það er ekki bara hláturinn sem losar um streitu. Brosið hefur álíka mikil áhrif. Ef þú hugsar bros þitt til augnanna þá kemur viss sjarmi yfir þig. Margir telja augun vera musteri sálarinnar. Horfir þú djúpt í augu einhvers þá telja sumir að hægt sé að lesa í líðan viðkomandi. Ef þú æfir þig að brosa til augnanna nokkrum sinnum á dag fer þér ósjálfrátt að líða betur. Vittu líka til, fólk fer að sækja í þá jákvæðu strauma sem þú gefur frá þér við það.

Ekki taka hlutunum of alvarlega
Prófaðu að snúa vandræðalegum atvikum, mistökum og vandamálum upp í smávegis grín. Sumu er hægt að gera grín að strax, á meðan annað þarf smátíma. En það sem einkennir fólk sem hlær mikið er að geta gert grín að sjálfu sér. Við erum þá kannski ekki að tala um það allra persónulegasta. En staðreyndin er sú að flestu má hlæja að. Svo framarlega sem við gefum tækifæri til þess. Mistök eru til að læra af þeim og hlæja svo að þeim seinna meir.

 

Texti: Kristín Ýr Gunnarsdóttir

Related Posts