happy-girl-in-converse

SNIÐUGT: Æ fleiri vörutegundir eru fáanlegar á Netinu og það munar miklu að fá hlutina senda heim fremur en að keyra um allan bæ í leit að fatnaði, skóm, gjöfum eða öðru.

Farðu stystu leið:

Margar konur gera óhóflegar kröfur til sjálfra sín. Þær leggja sig allar fram í vinnunni, koma heim til að skúra, skrúbba og bóna og passa að ætíð sé fjölbreyttur og næringarríkur matur á borðum fyrir heimilisfólk. Það segir sig sjálft að til lengdar er erfitt að halda þessum viðmiðum. Oft er hægt að stytta sér leið

Oft telur fólk sér trú um að enginn annar geti leyst verkin jafnvel af hendi og það sjálft en máltækið segir að kirkjugarðar heimsins séu fullir af ómissandi fólki. Með því að setja ákveðna reglu um hvernig hlutirnir eiga að vera gerðir er verið að taka allt frumkvæði af þeim sem eiga og vilja vera hjálplegir. Flestir gefast mjög fljótt upp á að reyna ef stöðugt er sett út á verk þeirra. Fyrsta skrefið í átt að því að slaka á og vera betri við sjálfan sig er að ákveða að stundum má fara stystu leið að markinu og ekki þarf alltaf allt að vera fullkomið.

1. Leyfðu heimilisfólkinu að taka til á sínum hraða og með eigin aðferðum.
Þótt það sé ekki gert eins og þú gerir það er ekki þar með sagt að það sé ómögulegt. Ef þú vilt losna alfarið við tuðið og streituna út af þrifunum er gott að ráða einfaldlega manneskju í að þrífa.

2. Kauptu inn á Netinu. Æ fleiri vörutegundir eru fáanlegar á Netinu og það munar miklu að fá hlutina senda heim fremur en að keyra um allan bæ í leit að fatnaði, skóm, gjöfum eða öðru. Notfærðu þér þægindin sem tæknin býður upp á og sparaðu tíma.

3. Kauptu mat sem lítið þarf að hafa fyrir. Allir vita að mikið unnin matvæli eru óholl en það er ekki þar með sagt að alltaf þurfi að gera allt frá grunni. Í fiskbúðum fást réttir gerðir úr ferskum fiski sem aðeins þarf að henda inn í ofn. Notfærðu þér það. Það er einnig gott að elda pottrétti, lasagna og fleira í stórum skömmtum og frysta afgangana. Þá má grípa til þeirra þegar mikið er að gera.

4. Gerðu ráð fyrir klukkustund á degi hverjum sem þú átt eingöngu fyrir þig sjálfa. Hana getur þú notað til að fara í göngutúr, lesa eða einfaldlega sitja með hendur í skauti og horfa út um gluggann. Þetta er þinn tími og hvorki börn, maki, vinna eða aðrar skyldur komast að meðan hann líður.

5. Fáðu þér kríu. Þreyta og orkuleysi getur orðið viðvarandi og hrjáir líklega flesta á veturna. Að fleygja sér aðeins út af þegar komið er heim á daginn og láta sér renna í brjóst í nokkrar mínútur gerir kraftaverk. Það hefur sjaldnast áhrif á nætursvefninn en hugur og líkami endurnýjast. Menn verða þó að passa að krían verði ekki of löng.

Allir þurfa að horfast í augu við að þeir eru bara mannlegir. Slökun er jafnnauðsynleg manninum og vinnan og sýnt hefur verið fram á að hæfileg blanda af þessu tvennu eykur hamingju og lífsgleði. Þá skemmir ekki að vita að hamingjusamt fólk lifir lengur, nýtur meiri vinsælda og almennrar velgengni heldur en hinir. Ótal rannsóknir sem gerðar hafa verið vítt og breitt um heiminn benda allar í þessa átt. Þær sýna einnig að menn geta miklu ráðið um hversu mikillar ánægju og lífsgleði þeir njóta og hugarfarið ræður þar ekki hvað síst.

 

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

Related Posts