Casablanca (1943) er dæmi um snilld Hollywood:

Seint mun nást sátt um alla þá lista sem teknir eru saman um það besta og versta á hinum ólíkustu sviðum mannlífsins. Listar af þessu tagi geta þó verið ágætisvegvísar og í versta falli dágóð skemmtun og tilefni til rökræðna og vangaveltna. Óskarsverðlaunin verða einnig seint talin áreiðanlegur mælikvarði á gæði kvikmynda en á nýjum lista yfir bestu myndirnar sem hlotið hafa verðlaunin sem besta myndin eru þó óumdeild meistaraverk. Þannig að nú er bara að drífa sig á Netflix eða í Laugarásvídeó og dusta rykið af snilldinni.

1 Casablanca (1943)
Þessi sígilda mynd er besta dæmið um snilld Hollywood-kerfisins á gullöld kvikmyndaveranna. Þá voru myndir framleiddar á færibandi og leikarar voru samningsbundnir ákveðnum kvikmyndaverum. Við gerð Casablanca gekk allt upp og myndin er sígildur vitnisburður um hvers stúdíóin voru megnug þegar allir í hópnum voru upp á sitt besta. Humprey Bogart og Ingrid Bergman glansa í aðalhlutverkunum undir styrkri stjórn Michael Curtiz.
2 The Godfather (1972)
Besta kvikmynd síðari hluta 20. aldarinnar. Þessi mafíumynd Francis Ford Coppola er í raun greining á bandarísku samfélagi á sögutímanum, fléttum pólitíkur, fjölskyldna, viðskipta og trúar frá sjónarhóli tíma þar sem trúin á þessu öllu var hverfandi. Svo er þetta auðvitað magnaður harmleikur um mann sem eignast allt en missir sál sína í leiðinni.
3 The Godfather Part II (1974)
Ein besta framhaldsmynd sem gerð hefur verið, enda dýpkar hún skilninginn á sögu og persónu fyrri myndarinnar. Al Pacino heldur áfram að þróa persónu Michaels Corleone sem hefur tekið við glæpaveldi föður síns á meðan Robert DeNiro fer á kostum í forsögunni og leikur Don Corleone ungan og speglar þannig Marlon Brando úr fyrri myndinni.
4. Annie Hall (1977)
Woody Allen var upp á sitt besta á þessum tíma, löngu áður en hann varð úthrópaður níðingur og óþverri. Ein snjallasta og fyndnasta gamanmynd sem komið hefur fyrir sjónir bíógesta. Samleikur Allens og Diane Keaton er meiri háttar og brandararnir djúpir og margir.
5. Lawrence of Arabia (1962)
Sannkölluð stórmynd frá hinum magnaða David Lean. Peter O´Toole, ungur og fagur, brillerar í hlutverki breska hermannsins T.E. Lawrence sem tókst það þrekvirki að sameina araba gegn Tyrkjum í fyrri heimsstyrjöldinni. Rosalegt eyðimerkurdrama og ógleymanleg mynd.
MYNDIRNAR Í 6.-10. SÆTI
6 On the Waterfront (1954)
7 Gone With the Wind (1939)
8 All About Eve (1950)
9 It Happened One Night (1934)
10. The Silence of the Lambs (1991)

Related Posts