Létta leiðin til að lækka matarreikninginn:

Líklega er alltaf gott að vera meðvitaður um að sóa ekki og vera útsjónarsamur í innkaupum. Nú þegar virðisaukaskattur á mat hefur verið hækkaður en sennilega enn meiri ástæða til að vera meðvitaður um matarreikninginn. Hér koma nokkur góð ráð til að lækka matarútgjöldin og bæta umgengni sína við mat.

Kauptu heilan kjúkling

Kauptu ævinlega heilan kjúkling, frosinn eða ferskan. Kílóverðið er mun lægra og auðvelt að hluta hann í sundur. Ef þú kaupir kjúklinginn ferskan getur þú skipt honum í bringur, leggi, læri og vængi og eldað eina máltíð og fryst það sem eftir er. Annað ráð er að heilsteikja kjúklinginn, hreinsa afgangskjötið af beinunum þegar búið er að borða og frysta það í pokum. Næstu vikur má síðan nota kjötið í salöt, pottrétti, ofnrétti, samlokur eða ommelettur, þægilegt, fljótlegt og auðvelt. Til hátíðabrigða má gera hið sama við kalkún en maturinn af honum endist ótrúlega lengi.

Steiktu kjöt- og fiskibollur

Fæsta munar mikið um að eyða hálftíma lengur við að matreiða einn dag í viku. Þess vegna er gott að búa til fiskfars eða kjötbolludeig í stórum skömmtum og elda. Bollurnar má síðan frysta í pokum og grípa til næstu vikurnar. Flestir foreldrar kannast líka við að eiga erfitt með að fá börnin til að borða grænmeti. Bollurnar gefa líka gott færi á að koma í þau hollustu án þess að þau viti af því. Út í kjötbolludeig og fiskfars má rífa rófur, gulrætur, hvítkál eða annað grænmeti. Það bæði drýgir matinn og bragðbætir hann. Enn einn kosturinn er svo að börnin borða grænmeti eldað á þennan hátt með bestu lyst.

Nýtið allt

Margir kvarta undan því að grænmeti sé dýrt hér á landi en ótrúlegu magni af því er hent á venjulegum meðalheimilum. Sumir borða t.d. eingöngu brúskana af brokkólíi og blómkáli. Stönglarnir eru góður matur líka og hægt að skera þá smátt og sjóða eða rífa niður og blanda í margskonar rétti. Salat sem er orðið ofurlítið slappt má hressa við með því að leggja það í bleyti í svolítinn tíma og hið sama gildir um tómata og paprikur. Tómatar sem eru orðnir linir henta vel í tómatsósu og hægt er að sjóða niður í krukku góða, bragðmikla sósu og geyma í eina til tvær vikur í ísskáp. Ávexti má frysta eða gera úr þeim mauk. Það má líka baka böku og frysta. Það er alltaf gott að eiga eitthvað með kaffinu þegar gestir koma.

Kaupið inn fyrir vikuna

Mjög margir hafa lækkað matarreikninginn verulega með því að ákveða matseðil fyrir vikuna og kaupa inn í samræmi við innkaupalista. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk fer í verslun á hverjum degi kaupir það alltaf meira en það sem vantar og þannig léttist buddan fljótt. Mikill tímasparnaður felst líka í þessari leið því oft eyðir fólk löngum tíma í að ákveða hvað eigi að vera í matinn. Sumir hafa einnig þann háttinn á að elda matseðilinn fram í tímann og frysta. Þá þarf ekki annað en taka álbakka úr frystinum og hita í ofni.

 

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

Related Posts