how-to-concentrate.WidePlayer

Tæknin veldur því einnig að okkur finnst við stöðugt vera að missa af einhverju

Bættu einbeitninguna:
Áreiti í okkar daglega lífi hefur aldrei verið meira, þökk sé tækninni. Tæknin veldur því einnig að okkur finnst við stöðugt vera að missa af einhverju ef við erum ekki að sinna milljón hlutum í einu. Allt þetta verður til þess að einbeitning okkar skerðist og við eigum erfiðara með að framkvæma ýmis dagleg verk. Stundum er talað um áunninn athyglisbrest í þessu samhengi en í mörgum tilfellum er ekki um neitt annað en vana að ræða sem er hægt að venja sig af. Hér eru nokkur góð ráð til að reyna að bæta einbeitningu.

Skiptu kaffibollanum út fyrir líkamsrækt

Ef þú ert ein þeirra sem byrjar hvern morgun á þreföldum latte þá gæti þér þótt erfitt að einbeita þér án koffínsins. Heilinn fer að láta sem hann þurfi koffínið til að halda einbeitningu. Prófaðu að skipta kaffinu út fyrir annars konar örvun, til dæmis hreyfingu. Það hefur sýnt sig að líkamleg áreynsla hefur góð áhrif á einbeitningu, bæði hjá þeim sem þjást af athyglisbresti og hinum. Líkamshreyfing losar um alls kyns efni í heilanum sem er talið að geti haft áhrif á minni og lærdóm.

Drekktu meira vatn

Rannsókn frá árinu 2012 sem birtist í vísindatímariti helguðu næringarfræði sýndi fram á að væg ofþornun getur skert einbeitningu. Þessi ofþornun getur verið svo væg að þú finnur vart fyrir því að öðru leyti. Í rannsókninni kom fram að konur sem fengu aðeins takmarkaðan vökva eftir líkamsrækt og upplifðu því um tveggja prósentu ofþornun mældust með skerta getu til að framkvæma alls kyns hugræn próf. Að öllum líkindum gerist þetta vegna þess að heilinn er mjög vakandi fyrir öllum lífeðlisfræðilegum breytingum líkamans og skiptir yfir í lakari gír til að reyna að fanga athygli þína. Þegar þú finnur næst að þú átt erfitt með að einbeita þér prófaðu að drekka stórt glas af vatni, en það er einnig góð regla er að hafa vatn alltaf við höndina.

Taktu svefninn alvarlega

Eitt af því fyrsta sem læknar gera þegar fullorðinn einstaklingur talar um athyglisbrest er að kanna svefnmynstur viðkomandi. Svefnleysi gerir fólk ruglað, sljótt og einbeitingarlítið og viðbragðsflýtir þeirra minnkar til muna. Við könnumst flest við draumsvefn, eða REM-svefn, en sá svefn hjálpar til við minni og að læra nýja hluti. Einbeitingarleysi er talið helst stafa af skorti á svokölluðum hægbylgjusvefn sem kemur á undan REM-svefni. Á meðan á hægbylgjusvefni stendur er svo gott sem slökkt á heilanum og einungis grunnvirkni í gangi. Margt bendir til að þetta sé tíminn sem ýmis hugræn starfsemi endurhlaðist og styrkist. Svo ef þú færð reglulega undir sjö klukkustunda svefn getur einbeitningin farið að versna. Prófaðu að gefa þér viku þar sem þú færð allavega níu klukkustunda svefn á hverri nóttu og sjáðu hvort eitthvað breytist ekki.

Hreyfðu tærnar

Þökk sé Internetinu og alls kyns tækni; snjallsímar, tölvur, útvarp, sjónvarp og svo framvegis, er athygli okkar stöðugt dreifð og heili okkar er orðinn vanur að hugsa um milljón hluti í einu. Þetta getur þó haft slæm áhrif á einbeitingu okkar sérstaklega þegar um ræðir eitthvað eins og fyrirlestur eða mikilvægt samtal. Ef þú kannast við að missa athygli í slíkum aðstæðum þá er gott ráð að færa einbeitinguna niður í tær í augnablik, ef þú getur reyndu að hreyfa þær aðeins í skónum; kreppa þær og fetta. Þetta ráð kemur úr kenningum gjörhygli og svínvirkar því með þessu kemstu aftur inn í stað og stund með einbeitinguna í lagi.

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts