Ragnar Ingi Stefánsson (50) er vélhjólaíþróttamaður á besta aldri:

 

Í hálfan fjórða áratug hefur Ragnar Ingi Stefánsson spreytt sig í Motocross-sportinu, unnið ýmsa titla í gegnum ævina og frá upphafi átt þann draum að fara út til Kaliforníu og keppa í vélhjólaakstri. Nýlega ákvað hann að láta verða af stóra skrefinu og skella sér í ferðina í tilefni stórafmælisins. Við tók minning sem aldrei gleymist.

 

MEÐ KALLA: Raggi og Karl Gunnlaugsson pæla í framdempurunum.

MEÐ KALLA:
Raggi og Karl Gunnlaugsson pæla í framdempurunum.

Í góðum gír „Ég hef alltaf verið með svakalegan áhuga á öllu mótortengdu, alveg frá ungaaldri,“ segir Ragnar, sem nýbúinn er að eignast nokkra nýja titla í Bandaríkjunum. „Ég hef verið í kringum 10 eða 11 ára þegar pabbi reiddi mig fyrst á mótorhjóli sem hann átti, Yamaha DT360, og skömmu seinna fóru kunningjar að eignast skellinöðrur. Ég hafði ekki efni á svoleiðis sjálfur fyrr en 15 ára en hjálpaði félögunum að gera við svo að ég fengi að prófa. Safnaði svo sumarlaununum í tvö ár til að geta keypt skellinöðru, sem ég eignaðist 16 ára.“

Ragnar segist hafa prófað allt mögulegt en aldrei fundið fyrir sama „kikki“ og í Motocross-inu. „Það er ekkert eins líkamlega erfitt. Í gegnum tíðina hef ég keppt á toppstigi í sundi, sundknattleik – bæði á Íslandi og í Svíþjóð – og í fótbolta og ekkert af þessu krefst jafnmikillar einbeitingar og „Crossið“ að mínu mati. Skemmtunin og sú vellíðan sem maður finnur eftir æfingar er óviðjafnanleg.“

Ragnar hefur keppt án hlés í 35 ár og níu sinnum orðið Íslandsmeistari í opnum flokkum, síðast fyrir tæpum áratugi síðan. En nú í haust, í tilefni fimmtíu ára afmælis síns, mætti hann á brautina Glen Halen í Kaliforníu, sem að hans sögn þykir ein sú erfiðasta í heimi. ,,Brautin er gróf, með svakalegar brekkur og hæsti punkturinn er um 130 metrar yfir lægsta punkti, og bein brekka niður, í rauninni eins og að keyra niður af þrjátíu hæða blokk. En það hefur verið draumur minn síðan ég byrjaði í sportinu að fara til Kaliforníu að keyra og keppa í Moto,“ segir hann sæll.

EINS OG Í BÍÓMYND: Það vantar ekki að ameríski fáninn er í hæðsta punkti brautarinnar.

EINS OG Í BÍÓMYND:
Það vantar ekki að ameríski fáninn er í hæðsta punkti brautarinnar.

Á kafi í drullu

,,Ég var heppinn þar sem mikil rigning gerði brautina erfiða og eftir að hafa keyrt mikið í drullu á Íslandi hentaði það mér vel. ,,Ég fékk lánað Kawasaki KX450F hjá Kawasaki í BNA sem var reyndar alveg ,,ótjúnað“ en glænýtt, sem er ekki kostur því þá þarf að tilkeyra það og sjá til þess að allt virki, sérstaklega fjöðrunin. Aðrir keppendur gerðu reyndar grín að mér fyrir að vera á óstilltu hjóli og ekkert síður fyrir að vera með staðlaða fjöðrun.“

Keppt var í 45+ og 50+ expert flokkum, en almennt eru getuflokkarnir þrír: byrjendur, miðlungs og expert sem er hraðasti hópurinn. Í hverjum flokki er keppt í tveimur umferðum. „Ég var þriðji í fyrstu keppninni í 45+ flokknum en ég vann bæði mótin í 50+. Ég fór hægt af stað en framúraksturinn hjálpaði mér talsvert. En svo kom ég fyrstur út úr startinu í seinni lotunni, sem var alveg sérstaklega góð tilfinning því ég hélt svo forystunni allan tímann,“ segir hann.

SÆLL: Kappinn stoltur eftir að hafa tekið við verðlaununum.

SÆLL:
Kappinn stoltur eftir að hafa tekið við verðlaununum.

Vínsmökkun og heimafögnuður

Að undanskyldum árangrinum á brautinni segir Ragnar að þessi afmælisferð hafi verið svo sannarlega meiri háttar. „Það var margt á prógramminu okkar, til dæmis kíktum við í vínsmökkun, og þegar maður er kominn á þennan aldur þarf ekki alveg að missa sig eins mikið í ströngu mataræði. Á svæðinu er mikið af vínekrum þannig að mér þótti það engin spurning að kíkja við,“ segir hann.
„Síðan vildi svo skemmtilega til að uppskeruhátíð MSÍ, Mótorhjóla- og vélsleðasambands Íslands, var haldin nokkrum dögum eftir heimkomuna og þar stóðu allir upp og fögnuðu þessum árangri með mér.“

 

 

LJÓSMYNDIR: KARL GUNNLAUGSSON / SANDRA GUÐMUNDSDÓTTIR

Related Posts