Í dag á pabbi minn 50 ára afmæli. Því var fagnað með pompi og prakt um síðustu helgi þar sem vinir og vandamenn komu saman og skemmtu sér í níu og hálfa klukkustund og drukku sirka 110 lítra af áfengi.

Þó að mörgum finnist þetta ekki hár aldur þá finnst mér það svo sannarlega. Ég hef alltaf verið stelpan með ungu foreldrana og litið á þau frekar sem vini mína í seinni tíð heldur en einhvers konar yfirvald og er það því ákveðið sjokk að pabbi sé kominn í seinni hálfleik í lífinu. Mér leið eins og ég hefði fengið kalda vatnsgusu í andlitið og það rann upp fyrir mér sú staðreynd að foreldrar mínir væru dauðlegir.

Anna Gréta Oddsdóttir, Oddur Hafsteinsson

SÆT SAMAN: Pabbi og pistlahöfundur.

Þegar maður er lítill þá eru foreldrarnir einhvers konar goð – allt sem þau gera er heilagur sannleikur og það er eins gott að fylgja leiðinni sem þau leggja fyrir mann því annars fer allt til helvítis. Síðan koma árin og þá fara foreldrarnir smátt og smátt að ganga niður af pallinum og maður fer að hlusta á það sem þau segja með fyrirvara og tekur ráðin sem þau gefa og blandar þau með votti af gagnrýnni hugsun og tekur þau úr pottinum og lifir eftir þeim. Margt gengur á í sambandi foreldris og barns en það kemur ákveðinn tímapunktur þ.e.a.s. ef pabbi og mamma eru enn til staðar að þau verða dauðleg í huga barnsins þeirra.

Þegar kom að veislunni vissi ég að ég þyrfti að semja ræðu þar sem ég var komin með vit til að koma með vandræðalegar sögur í bland við frásagnir af hégómlegum hversdagsleikanum.

Hvað gat ég sagt? Átti ég að gráta fyrir framan 80 manns og segja hvað pabbi væri æðislegur? Niðurstaðan var sú að ég sagði sögur sem sýndu pabbi í sínu rétta ljósi – sem ofvaxinn ljúfling með hjarta úr gulli en sýnir það allt of sjaldan. Ég sagði sögur af því þegar hann grætti Heimi Karls í fótbolta á vellinum á Siglufirði og þegar hann tók á sig reikning liðsfélaganna þegar þurfti að kaupa ný föt til að djamma í – þótt hann væri líklega sá fátækasti í liðinu. Í þessum sögum gerði ég grín að pabba og lét hann verða ódauðlegan örlítið lengur.

Þetta verður örugglega enn þá verra þegar mamma verður fimmtug á næsta ári en eins og einhver góður vinur sagði í einu afmæliskortinu til pabba: „Þó að þú sért kominn í seinni hálfleik þá ert þú með boltann.“

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts