Hver kannast ekki við að leggjast á koddann og innan skamms hellast áhyggjur morgundagsins yfir. Tíminn líður og styttist óðum í nýjan dag. Þú starir á klukkuna og keppist við að reyna að sofna. Erla Björnsdóttir sálfræðingur hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi og veitir meðal annars svefnmeðferð á Netinu á Betrisvefn.is. Hún lumar á nokkrum almennum ráðum við svefnleysi:

 

 • Ekki liggja í rúminu og reyna að sofna. Það gerir vandamálið einungis verra. Farðu frekar fram úr og gerðu eitthvað annað, t.d lesa. Farðu svo aftur í rúmið þegar þig syfjar á ný.

 

 • Ekki sofa meira en þú telur þig þurfa. Of mikill svefn getur orðið til þess að svefninn verði grynnri og við verðum þreyttari fyrir vikið.

 

 • Reyndu að hafa reglu á svefninum. Farða alltaf á sama tíma á fætur, jafnvel þótt þú hafir sofnað seint eða sofið lítið nóttina áður.

 

 • Hafðu hitastig í svefnherberginu mátulegt. Best er að hafa frekar svalt loft í svefnherbergi.

 

 • Borðaðu reglulega og ekki fara svöng að sofa. Hungur getur truflað svefninn. Létt snarl á kvöldin getur verið skynsamlegt en forðast skal þungar máltíðir rétt fyrir svefninn.

 

 • Forðastu að drekka mikinn vökva á kvöldin. Tíðar salernisferðir á nóttunni trufla svefngæði.

 

 • Stundaðu reglubundna hreyfingu. Reglubundin hreyfing eykur svefngæði. Forðast skal þó mikla hreyfingu minna en þremur tímum fyrir háttatíma.

 

 • Neyttu koffíns í hófi. Ekki drekka kaffi eftir klukkan 14.00 á daginn og forðastu einnig aðra koffínneyslu, t.d gosdrykki og súkkulaði.

 

 • Reykingar trufla svefn. Nikótín er örvandi og dregur úr svefngæðum.

 

 • Ekki taka áhyggjurnar með þér í rúmið. Reyndu að finna þér tíma yfir daginn eða á kvöldin til þess að fara yfir verkefni næsta dags og hugsa um það sem gæti valdið þér streitu á svefntíma.

 

 • Notaðu rúmið eingöngu fyrir svefn og kynlíf. Þetta hjálpar líkamanum og heilanum að læra tengingu milli rúms og svefns. Forðastu að lesa, horfa á sjónvarp eða borða í rúminu.

 

 • Dragðu úr áfengsneyslu. Áfengisneysla á kvöldin veldur grynnri svefni og auknum líkum á að vakna endurtekið yfir nóttina.

 

 • Feldu klukkuna. Það að fylgjast með klukkunni þegar verið er að reyna að sofna getur valdið pirringi, kvíða og gremju sem hefur neikvæð áhrif á svefninn.

 

 • Forðastu að blunda yfir daginn. Þó að það geti verið freistandi að halla sér í smástund á daginn eftir erfiða nótt þá er það alls ekki ráðlagt. Slíkt eykur aðeins vandamálið.

UMSJÓN: MARTA GOÐADÓTTIR

Related Posts