f

MUNA: Við gleymum oft að segja makanum okkar að við kunnum að meta hann.

Við kunnum uppskriftina en eigum stundum erfiðara með að fara eftir henni. Þegar kemur að hamingjuríkum samböndum er engin ein regla sem gildir fyrir alla en ef þú ferð eftir eftirfarandi ráðleggingum er líklegra en ekki að þú og makinn verðið hamingjusöm saman.

Jákvætt viðhorf

Við eigum það til að gleyma okkur í neikvæðninni. Við verðum pirruð út af vinnunni okkar, reiðumst vinunum og makinn er að gera okkur geðveik. Spurning hvort við höfum verið að drekka of mikið úr hálftómu glasinu? Það er mjög mikilvægt að við horfum í það jákvæða í fari makans í staðinn fyrir að einblína á það neikvæða, enginn er fullkominn.

Samskipti

Góð samskipti skipta höfuðmáli þegar kemur að hamingjuríkum pörum. Hins vegar vefjast heilbrigð skoðanaskipti fyrir mörgum. Hamingjusömu pörin segja oft að þau elski hvort annað og spara ekki hrósið. Þau ræða einnig erfiðu hlutina en sópa þeim ekki undir teppið. Til þess að þroskast saman og þróa sambandið er mikilvægt að par geti talað um tilfinningar sínar og líka um erfið málefni.

Virðing

Aretha Franklin söng heilan helling um virðingu, þannig að við ættum að vita hversu mikilvæg hún er fyrir sambönd. Að bera virðingu fyrir makanum birtist í mörgum myndum en til þess að halda sambandinu kærleiksríku er mikilvægt að virða tíma makans, persónuleika hans og traust. Hins vegar er margt sem eyðileggur traustið á milli para eins og að kalla hvort annað ljótum nöfnum, neikvætt tal um makann við vini eða fjölskyldu og hótanir um skilnað.

Gæðastundir

Þið þurfið ekki að vera saman öllum stundum en þegar þið eru saman er mikilvægt að tíminn sé innihaldsríkur og vel nýttur. Þótt það sé freistandi að borða fyrir framan sjónvarpið er tímanum betur varið við matarborðið þar sem dagurinn er ræddur. Þannig haldið þið djúpum vinskap sem er svo mikilvægur fyrir hamingjuríkt samband.

Tími í sundur

Að verja tíma í sundur er jafnmikilvægt og að verja tíma saman. Að gera hluti á eigin vegum og að halda í sjálfstæði sitt er gríðarlega mikilvægt. Þegar pör verja of miklum tíma saman er hætta á að þau verði of háð hvoru öðru. Notið tímann vel fyrir sjálf ykkur þegar makinn er fjarri.

Ég elska þig

Við gleymum oft að segja makanum okkar að við kunnum að meta hann. Við hugsum það jafnvel en gleymum að sýna það. Mikilvægt er að vera dugleg að sýna makanum okkar að við kunnum að meta hann og elskum. Hvort sem það er með orðum, kortum, blómum eða góðverkum. Sparaðu ekki fallegu orðin.

Veldu og hafnaðu

Þið munuð rífast og það er mikilvægt að ræða hluti sem geta komið upp á vel og vandlega. Hins vegar er góð regla að velja og hafna þegar kemur að rifrildum. Ef þið ætlið að rífast yfir smáatriðum er líklegt að þið gerið ekkert annað en að rífast, sem gerir engum samböndum gott. Þeir sem kunna að velja rifrildin vel endast frekar saman.

Kynlíf

Tölum um hversu mikilvægt kynlíf er fyrir heilbrigði sambanda. Því meira sem þú stundar það, því meira ertu til í það. Og því minna sem fólk stundar kynlíf, því minna virðist það þurfa á því að halda. Og í kjölfarið minnkar nándin við makann. Höldum sambandinu heitu með því að halda í neistann innan svefnherbergisins.

Enginn samanburður

Grasið er alls ekki alltaf grænna hinum megin. Og þótt það sé grænna, er ekkert víst að þú myndir fíla það. Við eigum það til að bera okkur saman við aðra; vinnuna okkar, heimili og lífsstíl og með hjálp samfélagsmiðla hefur það ástand ekki batnað. En hamingjusömustu pörin bera sig ekki saman við önnur pör og líta ekki öfundaraugum yfir á grasblett nágrannans.

Heiðarleiki

Vertu heiðarleg í samskiptum og láttu makann vita hvernig þér líður. Mundu að hann les ekki hugsanir. Ekki fara í kringum hlutina af ótta við að særa tilfinningar hans. Annars eiga leiðindin það til að safnast upp og þá er voðinn vís.

Komdu á óvart

Það getur verið erfitt að vera sjóðheitur og spennandi að eilífu. Eftir þónokkur ár saman getur spennan farið minnkandi og makinn orðið svolítið óspennandi. En líkur eru á að ef þér líður þannig, líði makanum mjög líklega þannig líka. Til þess að sporna við hversdagsleika og grámyglu er gott ráð að skiptast á að koma með hugmyndir að áhugaverðum stefnumótum í hverjum mánuði. Láttu það koma á óvart, hvort sem það er vínsmökkun eða kennsla í bogfimi. Gefðu hugmyndafluginu lausan tauminn.

 

Texti: Helga Kristjáns

Related Posts