Þegar litið er á pör eða hjón sem hafa lifað tímana tvenna og eru enn bálskotin hvort í öðru sér maður að flest eiga þau nokkra hluti sameiginlega. Það eru litlu hlutirnir sem skipta þar mestu máli. Hér eru nokkur atriði upptalin sem gott er að tileinka sér til að halda í heilbrigt samband.

Veittu makanum alla þína athygli

Varastu að láta tölvuna eða símann ræna athygli þinni þegar maki þinn er að segja þér frá einhverju. Varastu að kinka bara kolli og muldra eitthvað þegar þú ert í raun víðsfjarri, gefðu hinum helmingnum alla þína athygli. Til þess að eiga í ástríku sambandi er nauðsynlegt að vera til staðar fyrir makann.

Knúsist

Það eru ef til vill misjafnar skoðanir á mikilvægi kynlífs í samböndum en mikilvægi þess að snertast reglulega vitum við að skiptir höfuðmáli. Mundu eftir því að knúsa maka þinn, halda í hönd hans, nudda eða kyssa. Þegar þið tengist líkamlega eruð þið að staðfesta samband ykkar á mjög frumstæðan og öflugan hátt. Látið það ganga fyrir að knúsast reglulega.

Verið sæt hvort við annað

Þegar hveitibrauðsdagar sambandsins eru liðnir verður oft minna um að parið sé sætt hvort við annað. Munið eftir því að hjálpast að við heimilisstörfin og verið dugleg við að gera hvort öðru greiða eins og að ná í kaffibolla eða dekra örlítið hvort við annað.

Segið takk!

Þið lofuðuð hvoru öðru væntanlega öllu fögru á brúðkaupsdeginum en þegar tíminn líður verður oft minna um að þið segið að þið kunnið að meta hvort annað. Munið eftir því daglega að segja makanum að ykkur þyki hann æðislegur og þið séuð þakklát fyrir að hafa hann í ykkar lífi. Veljið að vera með honum á hverjum degi og tileinkið ykkur þakklæti.

Heyrist upp úr þurru

Upptekið fólk á það til að falla í þá gryfju að heyrast bara þegar þarf að ræða hver á að sækja krakkana, hver á að kaupa í matinn eða komið sé að því að borga kreditkortið. Láttu maka þinn vita að þú sért að hugsa um hann með því að hafa samband öðru hvoru yfir daginn, bara til þess að spjalla eða til að senda fallega kveðju.

Daðrið

Þó að þið hafið verið saman lengi, og kannski sérstaklega vegna þess, þarf maki þinn að fá að heyra það af hverju þú féllst fyrir honum til að byrja með. Taktu eftir nýrri klippingu og hrósaðu fyrir fallegan fatnað eða daðraðu með fallegu brosi.

Vinnið að einhverju saman

Hamingjusöm pör kunna að vinna saman sem teymi. Hvort sem það er við eldamennskuna eða við eitthvað áhugamál, þá styrkir það böndin og gerir ykkur að sterkari heild.

Skemmtið ykkur

Verið kjánaleg og stríðið hvort öðru. Búið til ykkar eigið kjánalega tungumál eða hlægið af einkahúmor ykkar. Hversdagslífið getur tekið á og það hjálpar að líta ekki of alvarlegum augum á hlutina. Seigustu pörin kunna að yppa öxlum öðru hvoru yfir fáránleika lífsins og hlæja saman.

Fyrirgefið

Minni háttar gremja á það til að verða að stærri vandamálum í samböndum, þess vegna er nauðsynlegt að sleppa tökum og halda áfram. Hamingjusöm pör vita að ekki eru öll stríð þess virði að vinna og oftar en ekki láta þau litlu hlutina fram hjá sér fara ef þeir ógna stóru myndinni.

Styðjið drauma hvort annars

Hamingjusömustu pörin eru þau sem styðja vonir og drauma hins aðilans, spyrja spurninga og hlusta og eru þeirra helstu klappstýrur í gegnum lífið. Jafnvel þótt þið hafið verið ástfangin upp fyrir haus þegar þið kynntust fyrst er mikilvægt að halda neistanum á lífi með því að styrkja böndin og hvort annað á hverjum degi. Ástin er eitthvað sem þið veljið að halda við og hlúa að.

 

Umsjón: Helga Kristjáns

Related Posts